Gleðileg Jól 2009
Árið 2009 hefur verið viðburðaríkt. Gargandi krísutíð alls staðar og Íslandið í sárum. En Ísland mun rísa aftur ekki vafi á því. Get nú ekki sagt að krísan hafi hrjáð mig sérstaklega mikið á árinu. Sú krísa sem ég hef verið í fjárhagslega hefur ekkert með heimskrísuna að gera. Ég er bara að vinna mig úr pati síðustu ára. En það lítur vel út. Fertugur verð ég með aukapening hver mánaðarmót og ætti að geta keypt mér húsnæði þegar ég fer á eftirlaun :)
Í byrjun árs flutti lítil stúlka inn til mín með börnin sín tvö...og hún er hér enn. Nú erum við flutt í nýtt húsnæði og meira pláss fyrir alla. Ég er alsæll með sambúðina. Fæ að horfa á fótbolta og sofa út. Hvað meira getur maður beðið um.
Árið í vinnunni hefur verið spennandi. Mikið að gera og kúnst að finna "réttu kúnnana" svo að ársáætlun haldist. Og það tókst bara nokkuð vel. Ég og félagi minn Jesper erum með bestu deildina á norðurlöndum. Allir kátir með það.
Ég hef líklega heimsótt um 300 mismunandi fyrirtæki á árinu af öllum stærðum og gerðum. Ég hef keyrt ca. 45 þúsund kílómetra fyrir vinnuna á þessu ári. Það út af fyrir sig er afrek því að Danmörk er ekki stærsta land í heimi.
Bíllinn minn er reyndar orðinn svolítið lúinn og fékk smá marblett í síðustu viku þegar ég leyfði honum að kynnast vegriði á hraðbrautinni. Lukkulega urðu engin slys á fólki og eina sem laskaðist var stolt ökumannsins, sem var nýbúinn að segja við vinnufélagann að hann væri þaulvanur að keyra í snjó.
Við krakkarnir fórum í skemmtilega ferð til Svíþjóðar í sumar. Keyrðum fyrst til Gautaborgar og dvöldum þar hjá Atla frænda í góðu yfirlæti. Þar hittum við svo Vilborgu og Co og Ragnhildi og co. Svo skemmtilega vildi til að ég hitti líka einn annan ættingja í flugumynd, Kalla Sig hennar Hjördísar föðursystur.
Frá Gautaborg lá leiðin til Stokkhólms, enda örstutt frá og börnin settu ekki smá bíltúr fyrir sig. Þar hittum við Helga Þór vin og klú"pp"félaga og áttum skemmtilega daga þar. Að lokum enduðum við í Malmö og kíktum á Hjörleif frænda, Jenný og bumbubúann. Þar fékk ég whiskýnámskeið "helt gratis" og bankandi höfuð daginn eftir.
Okkur tókst að leggja ca. 2000 km að baki í Svíþjóðarferðinni og geri aðrir betur.
Svo kom haustið og við Heiða ákváðum að 2ja herbergja íbúð væri kannski helst til of lítil. Við fundum þessa fínu íbúð nálægt miðbænum og leigan var ekkert svo há...nú voru líka tvær fyrirvinnur. Okkur líður afskaplega vel hérna og nú þegar ég skrifa þetta er allt skreytt, matarlyktin yfir allt og stutt í að jólin gangi í garð.
Þetta ár hefur ekki verið án fórna. Í desember dó Kalli, fyrrum mágur minn, og það var töluvert áfall. Ég þekkti Kalla mjög vel og átti með honum skemmtilegar stundir. Hann til dæmis bauð mér í fyrstu og einu veiðiferðina. Við stóðum í Þórisvatni 16.júní í snjóbyl og fiskuðum eins og enginn væri morgundagurinn. Virkilega góð ferð.
Kalli var óvenju hugmyndaríkur og ofsalega fær í því að hugsa út fyrir kassann. Hann var með margt í smíðum og ég verð að segja að ein skemmtilegast hugmyndin hans var sósupotturinn, þar sem sósan átti ekki að geta brunnið við.
Ég kveð góðan dreng og votta fjölskyldu hans mína dýpstu samúð.
Ég lýt björtum augum á næsta ár þar sem Ísland mun taka handboltann með stæl og England vinnur HM í Suður Afríku. Annað fer ég ekki fram á.
Ég óska öllum nær og fjær gleðilegra jóla og farsæls komandi árs.
Lifið heil.
Arnar Thor
Ummæli
Það er gott að heyra að árið hefur verið þér þokkalegt.
Ég verð þó að viðurkenna að ég tek það persónulega að þú kíkir ekki til mín í hádegiskaffi lengur, né heldur minnist á mig í bloggfærslunni!
En ég kvitta þó!
Eigið góðar samverustundir í hátíðunum og ég þakka fyrir mig og mína í gær!
Ég verð einnig að taka það fram að ég fór að ráðum þínum og bloggaði líka.
Með bestu kveðju úr sultunni,
Bláa berjakonan.